Skip to Content

Almannavarnir og öryggismál

Samkvæmt lögum um almannavarnir Nr. 82/2008 eru almannavarnanefndir skipaðar af sveitarstjórn og felst hlutverk þeirra í stefnumótun og skipulagningu starfs að almannavörnum í héraði. Almannavarnanefndir vinna að gerð hættumats og viðbragðsáætlana í samvinnu við ríkislögreglustjóra.

Heimasíða almannavarna: http://www.almannavarnir.is


Almannavarnanefndirnar starfa innan lögregluumdæmanna 9 og voru 21 nefnd starfandi í lok árs 2014.

Skipan almannavarnanefnda.
 
9. grein laga um almannavarnir fjallar um skipan almannavarnanefnda:
Í hverju sveitarfélagi starfar almannavarnanefnd, sem sveitarstjórn skipar og ákveður sveitarstjórnin fjölda nefndarmanna. Almannavarnanefnd skal skipuð sýslumanni þess umdæmis, sem sveitarfélagið er í, fulltrúum úr sveitarstjórn og þeim fulltrúum sveitarstjórna, sem í starfi sínu sinna verkefnum í þágu hins almenna borgara. Á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum sitja lögreglustjórar viðkomandi umdæma í almannavarnanefndum, en ekki sýslumenn.

Almannavarnanefnd kýs sér sjálf formann og varaformann. Sveitarstjórnir ráða starfsmenn almannavarnanefnda og greiða kostnað af störfum þeirra.
Sveitarstjórnum er heimilt að vinna saman að gerð viðbragðsáætlunar semja um gagnkvæma aðstoð eða koma á fót sameiginlegri almannavarnanefnd. Sameining almannavarnanefnda eða samstarf þeirra er háð staðestingu dómsmálaráðherra. Ráðherra ákveður hvaða sýslumaður skuli sitja í almannavarnanefnd ef fleiri en eitt sýslumannsumdæmi fellur undir nefndina.

Ef ein almannavarnanefnd er í umdæmi lögreglustjóra skal hann sitja í nefndinni.

10. grein laga um almannavarnir fjallar um hlutverk almannavarnanefnda:
Almannavarnanefndir móta stefnu og skipuleggja starf sitt að almannavörnum í samræmi við lögin .
Í umdæmum sínum vinna almannavarnanefndir að gerð hættumats og viðbragðsáætlana í samvinnu við ríkislögreglustjóra sbr. 16. grein laganna.

Almannavarnanefndir skulu endurskoða hættumat og framkvæma prófanir á viðbragðsáætlunum í samvinnu við ríkislögreglustjóra.

11. grein laga um almannavarnir fjallar um aðgerða- og vettvangsstjórn í héraði:
Stjórn aðgerða í héraði þegar almannavarnaástand ríkir er í höndum lögreglustjóra í viðkomandi lögregluumdæmi. Hann situr í aðgerðastjórn ásamt fulltrúa almannavarnanefndar, fulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar, fulltrúa Rauða kross Íslands, hlutaðeigandi viðbragðsaðila, sbr. viðbragðsáætlun, svo og öðrum hlutaðeigandi aðilum sem tengjast aðgerðum hverju sinni.

Aðgerðastjórn starfar í samvinnu við samhæfingar- og stjórnstöð. Í stjórn aðgerða felst m.a. skipulag björgunar- og hjálparstarfa vegna hættu eða tjóns sem getur eða hefur skapast og að stýra neyðaraðgerðum í samvinnu við samhæfingar- og stjórnstöð, sbr. 12. gr.

Lögreglustjóri tilnefnir vettvangsstjóra er fari með stjórn og samhæfingu á vettvangi.Drupal vefsíða: Emstrur