Skip to Content

Þjónustulóð við Gaddstaðaflatir á Hellu

Sveitarfélagið Rangárþing ytra vill með þessari auglýsingu koma rúmgóðri þjónustulóð á góðum stað við þéttbýlið Hellu á framfæri, nánar tiltekið sunnan þjóðvegar við Gaddstaðaflatir.  Gert er ráð fyrir ferðatengdri starfsemi í deiliskipulagi.

Rangárþing ytra leitar eftir traustum og öflugum aðilum til að byggja upp lóðina og er áhugasömum bent á að hafa samband á skrifstofu sveitarfélagsins.

Sími: 488 7000 - Netfang: birgir(hjá)ry.is


Sveitarstjórn Rangárþings ytra vinnur að gerð deiliskipulags á Hellu. Stýrihópur sveitarfélagsins hefur unnið tillöguna með skipulagshönnuðum frá Steinsholti sf.

Meginmarkmið sveitarstjórnar eru að:

 • Tryggja greiða aðkomu að nýju þjónustusvæði sunnan Suðurlandsvegar.
 • Bæta aðgengi að núverandi þjónustusvæði sunnan Suðurlandsvegar við Rangárbakka
 • Tryggja greiðari og hættuminni umferð um miðbæjarsvæðið.
 • Tryggja framboð á athafnalóðum, en engar slíkar lóðir eru lausar á Hellu.
 • Bæta ásýnd við aðkomu að Hellu.

Hagsmunaaðilar og íbúar hafa verið upplýstir í skipulagsferlinu. Tillögurnar hafa verið kynntar í sveitarstjórn og eru núna kynntar almenningi og hagsmunaaðilum á heimasíðu. Hér er síða Steinsholts sf. sem helguð er deiliskipulagsvinnunni.  Þar er m.a. hægt að sjá loftmyndir og drög.Tillögurnar eru í vinnslu og eru allar ábendingar og tillögur vel þegnar og má koma þeim til sveitarstjóra, beint til hönnuða eða til nefndarinnar. Áætlað er að ljúka vinnslu við tillögurnar og koma þeim til auglýsingar fyrir sumarið 2012 og þá gefst almenningi, hagsmunaaðilum og áhugaaðilum tækifæri til að koma að formlegum athugasemdum.


Gert er ráð fyrir ferðatengdri starfsemi og/eða þjónustu fyrir ferðamenn á þjónustulóðinni sem hér er vísað til en hún er á mjög góðum stað við þjóðveg 1, hringveginn.  Fjölmargt má nefna sem styður við þá tilhögun en um Hellu fer mikill fjöldi ferðamanna ár hvert.

Hér eru nokkur atriði til hugleiðingar sem nefna má tengd ferðamennsku:

 • Farið er um Hellu frá höfuðborgarsvæðinu þegar farið er að skoða Eyjafjallajökul, Þórsmörk, Byggðasafnið á Skógum, Vestmannaeyjar, Vatnajökulsþjóðgarð og Jökulsárlón svo eitthvað sé nefnt.

 • „Drottning íslenskra eldfjalla“, Hekla, er í um 37 km beinni sjónlínu frá Hellu. 

 • Fjöldi ferðamanna notar Hellu sem upphafsstað ferða í Landmannalaugar en þær eru einn allra vinsælasti áfangastaður íslenskra sem erlendra ferðamanna.

 • Lóðin liggur að Gaddstaðaflötum sem er vinsælt samkomusvæði.  Miklar líkur eru á að Landsmót hestamanna verði haldið á Gaddstaðaflötum árið 2014 sbr. fréttatilkynningar þess efnis í fjölmiðlum.  Besta útihátíðin er tónlistarhátíð sem haldin hefur verið á Gaddstaðaflötum í júlí.  Hátíðina sóttu um 10.000 manns á síðast ári.

 • Mikil og vaxandi sumarhúsabyggð er í Rangárþingi ytra og nágrenni.  Eigendur sumarhúsa og gestir þeirra sækja þjónustu á Hellu að miklu leyti.

 • Rangárnar eru meðal allra fengsælustu laxveiðiáa landsins.  Ytri-Rangá rennur í gegnum Hellu en Hella og nágrenni dregur til sín mikinn fjölda stangveiðimanna ár hvert.

 • Fyrirhuguð er bygging brúar ofan Búðafossar í Þjórsá sem tengir sveitarfélagið og Hellu sem helsta þéttbýliskjarna þess, betur inn í „Gullna hringinn“ svokallaða.

 • Strandarvöllur, sem liggur skammt austan við Hellu, er golfvöllur með mikið aðdráttarafl.  Reglulega eru haldin stórmót á vellinum og t.a.m. verður íslandsmótið í höggleik haldið þar sumarið 2012.

 • Glæsileg sundlaug er á Hellu sem nýtur mikilla vinsælda og dregur að sér fjölda ferðamanna.

 • Sú ferðatengda þjónusta sem fyrir er á svæðinu dregur að sér fjölda ferðamanna ár hvert.
  .

  Rangárþing ytra leitar eftir traustum og öflugum aðilum til að byggja upp lóðina og er áhugasömum bent á að hafa samband á skrifstofu sveitarfélagsins.

  Sími: 488 7000 - Netfang: birgir(hjá)ry.is

   Drupal vefsíða: Emstrur