Skip to Content

Atvinnumál

Prentvæn útgáfaPrentvæn útgáfa

Hér flokkast ýmislegt er varðar atvinnumál. Veljið undirflokka hér til vinstri.


Byggt á greinargerð með aðalskipulagi 2010-2022:
Á áttunda áratug 20. aldar fjölgaði íbúum um tæp 25% og má að hluta rekja það til fólksflutninga vegna Heimaeyjargossins og virkjanaframkvæmda á Þjórsársvæðinu. Á 9. áratugnum dró verulega úr fjölgun en þá var hún 2%. Síðasta áratug aldarinnar var fólksfjölgun um 3,5%, sem var svipuð fólksfjölgun og á Suðurlandi, en verulega minna en á landinu í heild. Í samanburði við aldur þjóðarinnar er aldursskipting íbúa í sveitarfélaginu nokkuð eðlileg. Þó eru íbúar á aldrinum 20 til 40 ára heldur færri en landsmeðaltal sem er svipað og hjá mörgum sveitarfélögum sem fjær búa framhalds- eða háskólasvæðum sbr. skýrslu Byggðastofnunar 2008. Þrátt fyrir að  drengir undir 10 ára séu áberandi færri en landsmeðaltal gefur til kynna þá er fjöldi barna og unglinga umfram landsmeðaltal og drengir 10-19 ára eru umtalsvert fleiri. 

Íbúar í Rangárþingi ytra voru 1.518 þann 1. jan. 2013. Á tímabilinu 2009 til 2022 spáir Hagstofan að landsmönnum fjölgi að meðaltali um rúmlega 0,5% árlega. Þar er áætlað að heldur dragi úr fjölgun landsmanna til 2012 en aukist síðan upp úr því. Gangi spá hagstofu eftir innan sveitarfélagsinsmun fjöldi íbúa verða um 1.670 árið 2022 en árleg fjölgun í sveitarfélaginu hefur verið tæplega 1,4% og áætlar sveitarstjórn að íbúum fjölgi áfram umfram landsmeðaltal og muni árleg fjölgun verða um 1,5% og íbúar verði um 1.900 við lok skipulagstímabils.

Atvinnumál
Gögn um atvinnumál eru ekki áreiðanleg og erfitt er að fá gögn um þau mál sérstaklega eftir sveitarfélögum. Það virðist sem lítið sé skráð um fjölda eftir atvinnugreinum og á grundvelli ársverka. Hagstofan safnar gögnum um atvinnumál og m.a. er unnin flokkun um atvinnuskiptingu. Hagstofan tekur fram að þessi flokkun er  ekki  nákvæm. Þessi gögn sýna ekki ársverk heldur „fjölda starfandi“ eins og Hagstofan kýs að nefna það, sem búa í viðkomandi sveitarfélagi, því kunna einhverjir að vera í hlutastörfum hjá tveim atvinnurekendum. Skv. þessum gögnum hefur starfandi einstaklingum fjölgað um tæp 6% til 2009 frá árinu 2000 í Rangárþingi ytra og miðað við gögn yfir alla sýsluna hefur starfsfólki fjölgað um 7% á sama tímabili. Umtalsverð fækkun er innan landbúnaðargeirans þ.e.a.s. í framleiðsluhlutanum en úrvinnsla landbúnaðarafurða flokkast með iðnaði. Síðast þegar Hagstofan skráði ársverk 1996 voru störf í landbúnaðarframleiðslu tæp 30% af heildarstörfum innan þeirra sveitarfélaga sem nú mynda Rangárþing ytra. Þá voru heildarársverk talin vera 614. Þær tölur eru að vísu ekki að öllu leyti samanburðarhæfar við núverandi gögn sem skrá starfandi aðila innan sveitarfélagsins en hlutfallslega gefa tölurnar vísbendingu um umtalsverða fækkun. Þetta er þróun sem er víða í landbúnaðargeiranum samfara aukinni tæknivæðingu en ætla má að á móti komi að störfum innan hrossabúgreinarinnar hafi fjölgað talsvert. Milli áranna 2000 og 2006 er heildarsamdráttur innan landbúnaðargeirans um 9 prósentustig. Samdráttur hefur einnig orðið innan fræðslu- og heilbrigðismála og virðist skv. gögnum Hagstofunnar það einkum vera innan fræðslugeirans. Veruleg fjölgun hefur orðið í iðnaði og opinberri stjórnsýslu og einnig hefur orðið talsverð fjölgun innan verslunar- og þjónustu.

Landbúnaður
Landbúnaður á Íslandi hefur verið að tæknivæðast mjög ört undanfarin ár og samhliða því hefur störfum fækkað umtalsvert. Það er hins vegar erfitt að fá áreiðanlegar tölur frá yfirvöldum um fjölda ársverka í greininni en tölur um fjölda búpenings og framleiðslu eru fyrir hendi hjá Bændasamtökum Íslands. Hefðbundinn landbúnaður á víðast hvar undir högg að sækja, bæði vegna fremur mikils framleiðslukostnaðar íslenskrar framleiðslu og meiri áhuga fólks á landi til annarra nota. Þess vegna hefur landverð á vissum svæðum landsins hækkað umtalsvert meira en hefðbundin landbúnaðarframleiðslan getur keppt við og Rangárþing ytra er innan þess svæðis þar sem talsvert hefur verið sótt í land. Sveitarfélagið er á svæði sem er mjög hentugt til hefðbundinnar landbúnaðarframleiðslu á íslenska vísu og segja má að nær allt láglendi sveitarfélagsins sé hentugt til landbúnaðar. Nautgripum hefur fækkað um 30% síðustu 20 árin og mjólkurkúm hefur fækkað um rúm 40% á árabilinu frá 1985-2007. Þetta er langt umfram landsmeðaltal þar sem nautgripum hefur einungis fækkað um 3% en mjólkurkúm um rúm 25%. Hestabúskapur hefur blómstrað mjög undanfarin ár enda landið hentugt til hrossaræktar. Fjöldi hrossa hefur aukist um rúm 70% síðustu 20 árin sem er langt umfram landsmeðaltal en skv. tölum bændasamtakan hefur hrossum fjölgað um rúm 40% síðan 1985. Sauðfé hefur fækkað um 40% síðan 1985 mest á árunum 1985 til 1995 en lítið hefur fækkað síðustu 10 árin. Fækkunin er heldur meiri en á landsvísu þar sem fækkun frá 1985 er um 35%. Þá er ótalin kartöfluræktin sem lengi var öflug, sérstaklega í Djúpárhreppnum. Skv. tölum frá Bændasamtökunum var allt fram undir aldamót um eða yfir helmingur af heildarframleiðslunni innan þeirra sveitarfélaga sem nú mynda Rangárþing ytra. Þegar hætt var að skrá kartöfluframleiðslu í forðagæsluskýrslur árið 2002 hafði hlutfall af landsframleiðslu aukist úr þetta 50-60% í ríflega 70%. Bændasamtökin halda utan um tölur um hversu margir bændur eru á hverjum tíma. Skv. þeim tölum hefur bændum fækkað um tæp 30% á landsvísu. Bændum í Rangárþingi ytra hefur fækkað mun minna eða um 20%. Augljóst er því að umtalsverður samdráttur er í landbúnaði innan sveitarfélagsins og í mörgum tilfellum mun meiri en landsmeðaltal. Þar er þó hrossaræktin undanskilin en þar virðist vera umtalsverður vaxtabroddur.

Stjórnsýsla
Hella er miðstöð stjórnsýslu fyrir sveitarfélagið. Þar er veitt margvísleg þjónusta fyrir aðliggjandi landbúnaðarhérað í vesturhluta Rangárvallasýslu. Félagsþjónusta Rangárvalla- og V- Skaftafellssýslu er staðsett á Hellu. Sveitarfélagið er aðili að Héraðsnefnd Rangæinga, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þá hefur sveitarfélagið samstarf við nágrannasveitarfélög á fjölmörgum sviðum sem nánar verður vikið að hér á eftir.

Grunnskólar og leikskólar
Sveitarfélagið rekur tvo grunnskóla; Grunnskólann á Hellu og Grunnskólann á Laugalandi í samstarfi við Ásahrepp. Tíu bekkjardeildir eru í báðum skólum og sér sveitarfélagið um akstur nemenda til og frá skóla. Þá rekur sveitarfélagið leikskólann Heklukot, þar sem er rými fyrir ríflega 70 börn á þremur deildum. Í samstarfi við Ásahrepp er rekinn leikskóli á Laugalandi þar sem er rými fyrir um 30 börn.

Tónlistarskóli Rangæinga og Fjölbrautarskóli Suðurlands
Sveitarfélagið er aðili að Tónlistarskóla Rangæinga sem er starfræktur af öllum sveitarfélögum í sýslunni og er kennt í öllum grunnskólum sýslunnar og einnig elsta árgangi í leikskólunum. Ennfremur er sveitarfélagið aðili að Skólaskrifstofu Suðurlands og Fjölbrautarskóla Suðurlands, sem staðsettur er á Selfossi.

Heilsugæslustöðin á Hellu og Lundur
Sveitarfélagið er ásamt öðrum sveitarfélögum í sýslunni aðili að Heilsugæslu Rangárþings bs. sem starfrækir heilsugæslustöðvar á Hellu og víðar. Sveitarfélagið sér um þjónustuviðfatlaða. Þá er sveitarfélagið ásamt Ásahreppi og ríkinu aðili að Lundi, Hjúkrunar- og dvalarheimili aldraðra á Hellu. Á Lundi eru hjúkrunarrými fyrir 22 heimilismenn og dvalarrými fyrir 8 heimilismenn.

Brunavarnir Rangárvallasýslu bs.
Sveitarfélagið er aðili að Brunavörnum  Rangárvallasýslu  bs. ásamt öðrum sveitarfélögum í sýslunni. Slökkvistöðvar eru á Hellu og Hvolsvelli.

Sorpstöð Rangárvallasýslu bs.
Sveitarfélagið er aðili að Sorpstöð Rangárvallasýslu bs. ásamt  öðrum  sveitarfélögum í Rangárvallasýslu. Sorpi er safnað á móttöku- og urðunarsvæði stöðvarinnar í landi Strandar austan Hellu, en þar er sorp flokkað í neysluúrgang, pappír, timbur og annan grófgerðan úrgang, jarðvegs- og gróðurúrgang, landbúnaðarplast, eitur- og spilliefni og brotajárn. Svæði stöðvarinnar hefur verið stækkað og er nú tæplega 30 ha. að stærð. Sorpstöð Rangárvallasýslu bs. er aðili að Sorpstöð Suðurlands sem gert hefur samkomulag við SORPU bs. um móttöku á sorpi til urðunar og móttöku á flokkuðum efnum til endurvinnslu.Drupal vefsíða: Emstrur